Og líka:
Ég var í strætó rétt áðan. "Gott kvöld," sagði strætóbílstjórinn við mig þegar ég flassaði græna passanum mínum.
"Góðan daginn," sagði ég og sneri mér frá honum. Ég hélt inn í vagninn.
Strætóbílstjórinn hafði gert skelfileg mistök: Og hann áttaði sig skyndilega á þeim. "Já, ég meina góðan daginn," heyrði ég hann segja örvæntingarfullt einhversstaðar fyrir aftan mig. Hann var gamall maður með gleraugun sín í snúru, svo hann gæti látið þau lafa fram á brjóstið.
Ég sagði ekkert meira, settist, framarlega eins og venjulega, ég á það til að verða bílveikur í strætó, vagninn tók af stað með harkalegum kipp. Nokkrum sekúndum síðar tók bílstjórinn, vagninn, glannalega beygju til hægri.
Gömul kona í svartri glansandi dúnúlpu með hettuna yfir höfðinu, sem sat rétt fyrir framan mig, var ekki viðbúinn þessu. Hún hélt sér ekki í neitt, hún hallaði sér ekki á móti kröfum hreyfi-eða þyngdaraflsins, og hún hentist af afskaplega miklum hraða úr sætinu.
Í sekúndubrot hékk hún lárétt í loftinu, og ég hugsaði ekki um fallandi tré þá en ég geri það núna: Nema að þessi ógæfusama gamla kona var meira eins og trjádrumbur sem slengt er af gríðarlegum krafti á frosna jörð og...
Ég ætla segja skilið við þessar trjálíkingar, og vinda mér í að lýsa því þegar, á mjög sorglegan hátt, þessi umtalaða gamla kona skall með höfuðið á undan, eins og loftsteinn, á blautu, skítugu og járnhörðu gólfi strætisvagnsins.
Þetta gerðist í algerri þögn, fyrir utan hefðbundnar drunurnar í strætisvagninum og umferðinni auðvitað, það er að segja: Það heyrðist ekkert hljóð frá konunni í fallinu. Hún var auðvitað frekar gömul, og viðbrögð gamals fólks eru eflaust hægari en ella, en ég hallast engu að síður að því að viðbrögð þessarar dúnklæddu gömlu konu hafi verið óeðlilega slæm.
Hvað um það, fall hennar var í það minnsta algerlega hljóðlaust af hennar hálfu, eina hljóðið í þessu falli var ískyggilegur holur málmhljómur þegar höfuð hennar og gólfið mættust á töluverðum mörgum kílómetrum á klukkustund, síðan annar málmhljómur þegar afgangurinn af líkamanum fór yfir höfuðið með lágu hvissi og sameinaðist síðan líkamanum. Þið megið samt ekki misskilja mig: Höfuðið fór ekki af eða neitt slíkt, það var enn áfast eftir þessa hrottalegu byltu.
Síðan varð þögn aftur, meira að segja umferðarniðurinn virtist hljóðna, þangað til að konan sem sat á móti fallistanum, og fékk fæturnar á henni á fæturnar á sér, sagði, með sterkum þýskum hreim:
"Oh my god! Are you okay?"
Já.
Þetta, lesendur góðir er dagsönn frásögn, en þið ykkar sem eruð efasemdamenn skuluð ekki líta á þetta sem lygi: Lítið í það minnsta á sögu mína sem spádóm.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home