ATTENTION: Your security is our aim. With or without hats, we try to make our readers feel welcome. From the mists of downtown Reykjavik we hype tunes that can make our society a safer place.

Monday, March 17, 2003

Ég vissi ekki hvað það var en það tengdist einhvernvegin holræsunum. Sturtan, vaskarnir og baðið stífluðust stundum, af og til gaus upp ógeðslegur fnykur úr niðurföllunum. Eina ráðið var að láta vatnið renna og hella stíflueiðandi lög, drullusokkurinnn dugði skammt. Ég notaði aðallega skaftið á honum til að drepa kóngulær og önnur skorkvikindi sem sátu fyrir mér inná baði. Kvikindin komu upp úr niðurföllunum, stundum festust þau í vaskinum en stundum skriðu þau inn í herbergið mitt og drápust undir rúminu. Stundum komust þau upp í rúm og drápust þar.

Það var orðinn ávani hjá mér, eins og að bursta tennurnar, að skrúfa frá öllum krönum í húsinu og loka öllum dyrum áður en ég fór að sofa. Allt til að hindra kvikindin sem eltu mig. Ég opnaði heldur aldrei glugga því þaðan komu flugurnar, ótal mismunandi tegundir sem allar reyndu að komast inn í herbergið mitt. Flugurnar voru verri en kóngulærnar, ég gat ekki sofnað ef það var fluga í herberginu. Þegar ég var byrjaður að dotta flaug flugan alltaf og lenti á sænginni og, ef ég gerði ekkert, skreið upp á andlitið til að borða drulluna úr svitaholunum.

Þegar ég var lítill krakki skreið risastór fiskifluga inn í eyrað á mér þegar ég var sofandi. Ég rumskaði við suðið í henni, það var eins og þyrla inní hausnum á mér. Ég vissi ekki þá hvað þetta var og lamdi í eyrað á mér þangað til að það stoppaði. Móðir mín sá mig lyggjandi í rúminu lemjandi í hausinn á mér, hún hélt mig væri að dreyma. Nokkrum dögum seinna fórum við til læknis og hann náði hrukkuðu flugulíki út úr eyranu á mér. Ég taldi lappirnar á henni, það urðu tvær eftir inni í hausnum á mér.

Þessvegna gat ég ekki sofnað ef það var fluga í herberginu, ég vissi að þær voru bara að reyna að skríða inn í hausinn á mér. Ég átti spreibrúsa með bóni sem ég spautaði á flugurnar þangað til þær urðu hægfara, svo lamdi ég þær til dauða með stuttermabol. Eitt sumarið var flugnafaraldur í húsinu og ég þurfti að drepa sautján flugur inni á baðherbergi til þess að komast í sturtu. Ég safnaði dauðu flugunum í hrúgu við hliðina á drullusokknum og hún stækkaði dag frá degi. Það voru örugglega komnar yfir tvöhundruð flugur í hrúguna þegar ég fattað að í miðri hrúgunni voru nýjar flugur að klekjast út. Þá þreif ég allt húsið.

Ég var ekki alltaf skordýraóvinur. Sem krakki drap ég ekki kóngulær frekar en jánsmiði eða ketti. Ef það var kónguló í húsinu þá hjálpaði ég henni út í garð þar sem hún átti heima og hugsaði með mér að hún hefði óvart villst og hefði farið sjálf út ef hún hefði ratað til baka. Mér þótti vænt um þær og fanst þær vera tignarlegar. En viðbjóðslegu kóngulærnar sem komu upp úr holræsunum voru ekki þannig. Þær voru gráar og með stuttar lappir, þær höfðu aldrei séð sólarljós og áttu ekki heima úti í garði. Auk þess voru þær ekki að villast þegar þær skriðu á veggnum við hliðina á rúminu mínu.

Kóngulærnar voru ekki það versta sem skreið upp úr niðurföllunum, margfætlurnar voru verri. Margfætlurnar voru verri en flugurnar. Þær voru ógeðslegar þegar þær lágu dauðar, samanskroppnar og rykfallnar undir rúminu, en mun ógeðslegri þegar þær voru lifandi og skríðandi. Einusinni kom ég heim um nótt og ætlaði að bursta tennurnar þá var ein svona svört og glansandi margfætla skríðandi í vaskinum en rann allaf niður þegar hún var að komast upp úr. Ég taldi lappirnar á henni þær voru þrjátíu, að auki hafði hún tvo fálmara sem rúlluðust upp og út og þreifuðu til hægi og vinstri. Ég drap hana með skaftinu á uppþvottabursta og burstaði tennurnar uppi í eldhúsi. Músin mín sem ég hélt að æti allt vildi ekki snerta þetta kvikindi.

Ég vissi ekki hvað það var en það tengdist einhvernvegin holræsunum.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home