ATTENTION: Your security is our aim. With or without hats, we try to make our readers feel welcome. From the mists of downtown Reykjavik we hype tunes that can make our society a safer place.

Tuesday, March 18, 2003

Skýrsla:
Borgarstarfsmaður nr. 0137679
Hreinsitæknir

Ég hef orðið var við vaxandi fjölda meindýra hér í holræsunum. Þá á ég sérstaklega við hinu gríðarlegu fjölgun skordýra hérna niðri, sem er jafn skyndileg og hún er óútskýranleg. Það er allt orðið morandi af köngulóm, margfætlum, flugum og þess háttar kvikindum þarna, það verður bókstaflega ekki þverfótað fyrir þesu. Ég er nú búinn að vera í þessu í 12 ár, en ég man ekki eftir öðru eins eða neinu þessu líkt. Ég hafði einnig orð á þessu við borgarstarfsmann nr. 1373166, sem er nú ansi gamall í hettunni, og hann staðfesti þann grun minn að þetta væri mesti fjöldi skordýra þarna niðri í manna minnum.

Ég hef heyrt samstarfsmenn mína kalla þetta "Pláguna" á milli sín, en ég held að það sé nú bara í hálfkæringi. Sjálfur hef ég nú aldrei sagt þvíumlíkt, en ég veit að menn eru að hugsa þetta og eru áhyggjufullir. Ég og strákarnir höfum nú aðeins verið að ræða þetta á milli okkar og verið að spá og spekúlera, og okkur datt í hug hvort að einhver hefði verið að losa eitthvað í kerfið sem gæti valdið þessu, hvað svo sem það gæti nú verið. Mér datt í hug hvort að það mætti ekki athuga þetta mál nánar.

Annars hefur þetta slæm áhrif á strákana, sérstaklega þá yngri, og eins og mátti kannski búast við eru komnar alls kona gróusögur í gang, eiginlega alveg á fljúgandi ferð. Menn eru að tala um að þeir hafi séð hitt og þetta þarna niðri, eins og risastórar kóngulær og rottur á stærð við hunda, og einn heyrði ég meira segja tala um að hann hefði fundið einhverjar líkamsleifar og hauskúpu í einu af eldri og fáfarnari svæðunum. Ég vil taka það skýrt fram að ég trúi auðvitað ekki orði af þessari vitleysu, menn eru bara búnir að horfa á of margar bíómyndir og svo getur myrkrið náttúrulega alltaf blekkt augað á ólíklegasta máta. Hins vegar þyrfti bara að útkljá þetta mál með vísindalegri rannsókn, því við erum jú vísindamenn á okkar hátt. Sting ég því hér með upp á fjárveitingu og rannsókn til að skoða þetta mál ofan í kjölinn og komast að röklegri niðurstöðu.

Virðingarfyllst
nr. 0137679

0 Comments:

Post a Comment

<< Home