Ekkert veit ég skemmtilegra en að takast á við próf, þó sérstaklega þegar þau eru á laugardögum, helst á sama tíma og enski boltinn, það þykir mér ákaflega gefandi, þ.a.s. að fórna lágmenningunni minni fyrir æðri menntun. Sveitt ungt fólk situr með nagaðan blýant og gamla konan sem situr yfir hópnum les ástarsögu eftir Betty Mahmoody og bíður þess að vera flutt aftur á elliheimilið eftir að yfirsetunni lýkur.
Núna sit ég í eldhúsinu mínu, kötturinn og konan farin að sofa, og hlusta þægilega tóna frá desemberistunum sem reyna að yfirgnæfa óveðrið. Nóttin er ung, en hverfur brátt. Þá tekur morguninn við. Hann verður grár. Líkt flestir vetrardagar á þessu landi. Því skil ég mæta vel fólk eins og Friðgeir sem hverfur frá gráa raunveruleikanum og dreymir burt veturinn og vaknar svo á vorin þegar að dagarnir eru fallegir (sbr draumasafn Friðgeirs á hægrispássíu). Svo mun sumarið enda. Því allt tekur endi um síðir. Eilífðin mín deyr og líka þín og aðrar eilífðir taka við og þær munu einnig hverfa. Þetta leiðir hugann að orðatiltækinu "að e-h tekur heila eilífð". Þá geri ég ráð fyrir að þar sé átt við heila mannsævi, cirka 80 ár ef þú ert karlmaður, en 85 ár ef þú ert kona, því við viljum ekkert ójafnrétti í þessum málum. Hinsvegar fyrir 20 árum síðan var "heil eilífð" 75 ár ef þú varst karlmaður og cirka 85 ár ef þú varst kona. Þarna hafa karlmenn greinilega tekið sig á. En hvar er þá hin eilífða eilífð ? Er svartholið eilífð eða er ekkert að eilífðu ?
Eilífðin hefur oftast verið skilgreind sem langur tími. Til langs tíma munum við öll deyja. Það er langt þangað til að það fer að vora. Það er hægt að skilgreina hugtakið "til langs tíma" eftir fræðigreinum. Þegar talað er um langan tíma í hagfræði er oftast átt við 10-20 ár, afturámóti er þetta hugtak skilgreint öðruvísi í jarðfræði, þar er langur tími í þúsundum alda. Alda finnst mér ekki fallegt nafn. Það er svo ógnandi. Að jákvæðari hlutum.
Ég fjárfesti í vikunni. Ég fékk greiddan arð vegna framgöngu minnar á Gauk á Stöng síðastliðinn laugardag. Ég og Hannes Óli sigruðum Friðgeir tíðnefndan og Gautmund ónefndan í kúluborðleik. Fyrirfram var rætt um að greiddur yrði arður af leiknum til þeirra sem sigra og átti sá arður að vera í formi áfengis. Það fór framhjá Firegeirð sem átti að greiða mér arð sökum ósigurs. Ég sætti mig við það, því undir áhrifum er ekki hægt að gera ráð fyrir skilvirkni í upplýsingum. Hinsvegar náði drengurinn að lauma arðinum inná mig í liðinni viku. Þar sem að ég átti alls ekki von á þessari greiðslu og vildi ekkert með hana hafa ákvað ég að ráðast til fjárfestingar. Ef fjárfestingin skilar, til skamms tíma (2-3 ár), jákvæðri ávöxun ætla ég að borga tíðnefndum Feiðrirg helming af eigninni. Ég er svo réttlátur. Réttlætið skiptir mig miklu máli. Fjárfestingin er svo hljóðandi:
Ég keypti 6 hluti (á genginu 14.8) í Íslandsbanka, 2 hluti í Bakkavör (44.6) og svo einn hlut í Jarðborunum (22.0). Alls kostaði þetta nákvæmlega 200 kr. Nú skulum við bara bíða og sjá hvað við verðum búnir að ávaxta peningana okkar mikið um næstu mánarmót.
Ætla hita mér kaffi, instant flugvélakaffi. Mig langar í espresso vél.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home