OOIOO - UMA Japönsk indie tónlist. Yoshimi blæs út raddböndin undir tryllingslegum drumbuslætti sem leiðir hugann að öðru sem blásið hefur út á þessu ári, en það er frú Verðbólga. Eru allir sem átta sig á henni, hvað þurfum við að gera til þess að hún haldi aftur af sér?
Verðbólga er mæld með vísitölu neysluverðs en hér á landi er einkum notast við tvær vísitölur, þ.e. annars vegar samræmda vísitölu neysluverðs á evrópska efnahagssvæðinu, og hins vegar hina hefðbundnu vísitölu neysluverðs sem Hagstofan reiknar og birtir í kringum 10. hvers mánaðar. Hin hefðbundna vísitala neysluverðs er notuð til verðtryggingar hér á landi og er hún mun þekktari.
Verðbólga er mönnum hugleikin um þessar mundir, enda hefur hún verið stighækkandi síðustu mánuði, samhliða gengisfalli krónunnar og þenslu í efnahagslífinu. Þann 12.júlí s.l. birti Hagstofan vísitölu neysluverðs og mældist 12 mánaða verðbólga þá 8,4%. Í síðustu viku var samræmd neysluverðsvísitala í EES-ríkjunum síðan birt en hún mældi verðbólguna hér á landi 5,7% sem er næst mesta verðbólga í þeim ríkjum sem mælingin nær til. Þessi munur stafar einkum af mismunandi samsetningu vísitalnanna og verður hér nánar vikið að því.
Markmiðið með útreikningi á samræmdri neysluverðsvísitölu fyrir Evrópska efnahagssvæðið er að auðvelda samanburð á verðbólgu á milli landa í Evrópu. Þannig er reynt að mæla á samræmdan hátt verðbreytingar í EES-ríkjunum. Mælingar af þessu tagi komu til vegna ákvæða í Maastrichtsamningi um myntbandalag og þá þurfti að vera mögulegt að mæla verðbólgu með samræmdum hætti. Samkvæmt ákvæðum í Maastrichtsamningum má 12 mánaða verðbólga ekki fara yfir 2,4% til að lönd fái heimild til að taka upp evruna. Vegna þessa hefur upptaka evrunar m.a. frestast í Eystrasaltslöndunum en 12 mánaða verðbólga í Lettlandi er 6,3%, Eistlandi 4,4% og Litháen 3,7%. Nú er vísitalan reiknuð fyrir 29 ríki en vísitalan var fyrst birt í ársbyrjun 1997, þá fyrir 17 ríki. Ísland hefur verið þátttakandi í þessari þróun frá upphafi.
Vísitala neysluverðs er reiknuð mánaðarlega af Hagstofu Íslands og miðast við verðlag tvo fyrstu virka daga mánaðarins. Grunnur vísitölunnar byggist á upplýsingum um útgjöld heimila úr neyslurannsókn en viðamikið úrtak af vörum og þjónustu er notað til að mæla verðbreytingar. Frá árinu 2002 hefur grunnur vísitölunnar verið endurskoðaður á hverju ári en niðurstöður þriggja ára mynda grunninn hverju sinni. Árlega eru niðurstöður eins árs felldar út og nýju ári bætt inn í staðinn. Nú er notast við neyslurannsóknir áranna 2002-2004. Meðal breytinga sem urðu á grunninum í mars síðastliðnum er að vægi ferða og flutninga jókst. Innflutningur á nýjum bílum var töluvert meiri á árinu 2004 en á árinu 2001 sem var tekið út og því jókst vægi þess í vísitölunni. Að sama skapi jókst vægi eldsneytis þegar árið 2004 kom inn í grunninn. Með tilkomu fleiri lágvöruverslana hefur hlutur dagvöru minnkað og flugfargjöld hafa lækkað þar sem að nú nær verðsöfnunin eingöngu til netfargjalda.
Að mestu leyti eru vísitölurnar eins, þ.e. byggt er á sömu gögnum, sömu reikningsaðferðum og þær eru báðar reiknaðar mánaðarlega. Það sem einkum aðgreinir vísitölurnar og gerir það að verkum að ekki fæst samskonar mæling á verðbólgu s.l. 12 mánuði er að eigin húsnæði er sleppt í mælingum á samræmdu neysluverðsvísitölunni. Hins vegar eru liðir eins og útgjöld til þeirra sem eru eldri en 75 ára og útgjöld erlendra ferðamanna (t.d. gisting og veitingar) taldir með í samræmdu vísitölunni.
Evrópusambandið hefur samþykkt reglugerð um að samræma tíma verðsöfnunar fyrir samræmda vísitölu neysluverðs í öllum þeim ríkjum sem eru þátttakendur í samræmdu vísitölunni. Verðsöfnunin skal fara fram um miðjan mánuð og taka að minnsta kosti viku. Hagstofa Íslands hefur mælt verðlag fyrstu tvo virka daga í hverjum mánuði og notar sömu gagnaöflun bæði fyrir hefðbundnu neysluverðsvísitöluna og fyrir samræmdu neysluverðsvísitöluna. Hagstofan hefur síðan birt sína hefðbundnu vísitölu í kringum 10. hvers mánaðar sem gildir síðan til verðtryggingar í mánuðinum á eftir. Ólíklegt er að Hagstofan verði með tvöfalda verðsöfnun og því verður fyrirkomulaginu líklega breytt þegar reglugerðin tekur gildi þann 1. janúar 2008. Þá verður hefðbundna vísitalan ekki birt fyrr en í lok mánaðar og gildir sennilega til verðtryggingar tveimur mánuðum síðar.
Að lokum vil ég segja ykkur frá því að við Fríða erum trúlofuð. Ég reyni að fylgja Úlfari í hvert fótspor.
6 Comments:
Til hamingju með trúlofunina meistari. Fríða og dýrið brandarar poppa upp í hugann en ég ætla samt ekki að skrifa neinn.
p.s. fín frammistaða í boltanum á fimmtudag. Synd samt að þurfa að deila pottinum með Goyt.
11:48 PM
Ókei...
1. Til hamingju. Þetta er fallegt og praktískt.
2. Er þessi verðbólga slæm? Á ég að hafa áhyggjur? Hver er niðurstaðan? hvaða lærdóm á ég að draga af þessu?
10:37 AM
SKAMM!!!!
10:30 PM
Við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur af vísítölum, peningum, prósentutölum, o.s.frv. svo lengi sem við berum umhyggju fyrir hvort öðru og látum hamingjuna skína úr andlitum okkar.
12:00 AM
En ég er samt órólegur yfir stýrivaxtahækkun seðlabankans í dag. Þegar ég las um hana fékk ég sting í gagnaugað og hland fyrir hjartað. Hef ég ástæðu til að óttast eða get ég slakað á?
9:32 AM
Innilega til hamingju Styrmir. Þar sem þið tvö hafið mesta hjónasvip sögunnar, er þetta eðlilegt skref að taka.
10:09 PM
Post a Comment
<< Home