ATTENTION: Your security is our aim. With or without hats, we try to make our readers feel welcome. From the mists of downtown Reykjavik we hype tunes that can make our society a safer place.

Saturday, November 19, 2005

Reyfarar eru sætmeti sem gefa orku í erli dagsins en skilja lítið eftir sig. Bókmenntirnar eiga hins vegar að vera kjarnbetri og stuðla að uppvexti og þroska þess sem neytir. Auðvitað getur það verið háð duttlungum tímans hverju sinni hvað teljast sorprit og hvað gullaldarbókmenntir en látum það liggja á milli hluta. Versta staða sem öndvegisbókmenntir geta lent í er ef þær hætta að teljast bragðgóð næring og fara að flokkast sem lýsi og grænfóður sem fólk sem neytir aðeins af skyldurækni eða neyð. Raunar er hægt að draga þessa líkingu lengra til þess að komast að kjarna málsins. Á Vesturlöndum er offita vandamál nú á dögum vegna þess að flestir borða án þess að velta sér mikið upp úr næringargildi og þegar upp er staðið er það bragðið sem ræður vinsældum hverrar fæðu. Á fyrri tíð átu flestir mun hollari fæðu en nú vegna þess að ekki var á öðru völ og galdrar nútímamatvælaframleiðslu með fitu og sykri voru ekki enn komnir fram. Þeir sem hins vegar borða hollustufæði nú á tímum gera það vegna þess að þeir hafa tekið um það meðvitaða og upplýsta ákvörðun. Lausnin við offituvandamálinu felst ekki aðeins í fræðslu heldur fremur í því að breyta matarmenningunni til betri vegar. Og hið sama gæti átt við um bókmenningu landsins. Þeir sem lesa fornsögurnar nú á tímum gera það af meðvituðum ástæðum en ekki af þeirri ástæðu einni saman að þeir vilji svala hungri eftir afþreyingu. En næg völ er á ódýru skyndibitafæði fyrir hina.

1 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Við skulum samt ekki tapa okkur í takmarkalausri og snobbaðri aðgreiningu og skilgreiningu á Há/lágmenningu. Það er nefnilega einnig mjög hætttulegt og í raun alls ekki til góðs.

2:14 PM

 

Post a Comment

<< Home