Afleiður eru samningar þar sem uppgjörsákvæði samninganna byggir á þróun einhvers þáttar svo sem vaxta, gengis gjaldmiðla, hlutabréfagengis, skuldabréfagengis, hlutabréfavísitölu eða verðs á hrávörum. Virði slíks samnings byggir á þróun þessara undirliggjandi þátta frá samningsdegi til uppgjörsdags. Dæmi um afleiður eru framvirkir samningar, valréttir og vaxtaskiptasamningar.
Framvirkur samningur (e. forward contract) er einfaldasta form afleiðusamnings og er samkomulag á milli tveggja aðila um að kaupa eða selja eign á fyrirfram ákveðnu verði á fyrirfram ákveðnum tíma. Eitt form framvirks samnings er að annar aðilinn sem gerir samninginn tekur gnóttstöðu (e. long position) og samþykkir að kaupa undirliggjandi eign á ákveðnu verði í framtíðinni, hann gerir því framvirkan kaupsamning. Mótaðili samningsins tekur skortstöðu (e. short position) og samþykkir
að selja undirliggjandi eign á ákveðnu verði í framtíð, hann gerir því framvirkan sölusamning. Framvirkir samningar geta verið af ýmsum gerðum og eru sérsniðnir að þörfum sérhvers viðskiptavinar.
Eins og framvirkur samningur er framtíðarsamningur (e. futures contract) samkomulag á milli tveggja aðila um að kaupa eða selja eign á fyrirfram ákveðnu verði á ákveðnum tíma. Ólíkt framvirkum samningum er verslað með framtíðarsamninga í um 50 kauphöllum um allan heim, en þó ekki á Íslandi. Framtíðarsamningar eru staðlaðir framvirkir samningar þar sem ákveðin er gerð undirliggjandi eignar, magn eignar og hvenær og hvernig eignin verður afhent. Allur hagnaður (og tap) af framvirkum
samningum er gerður upp í lok samningstímans en hagnaður (og tap) af framtíðarsamningum er gerður upp í lok hvers dags. Sá sem gerir framtíðarsamning þarf að leggja greiðslu á tryggingarreikning (e. margin account) hjá viðkomandi kauphöll. Í lok hvers viðskiptadags er markaðsverð samningsins fundið og ef verðgildi tryggingarreikningsins fer niður fyrir ákveðið gildi (e. maintenance margin) þá verður viðkomandi aðili að leggja inn upphæð á tryggingarreikninginn þannig að staða hans verði jafn há og í upphafi.
Ástæða þess að framtíðarsamningar eru staðlaðir og gerðir upp daglega er til þess að koma í veg fyrir vanskil. Mótaðilar að framvirkum samningi semja um kaup og kjör samningsins sín á milli, en mótaðilar að framtíðarsamningi þekkjast venjulega ekki, heldur stunda þeir sín viðskipti í gegnum kauphöll (eða í gegnum miðlara sem hafa aðgang að kauphöll). Því eru framtíðarsamningar staðlaðir og þeir gerðir upp daglega til þess að tryggja öryggi. Annar mikilvægur munur á framvirkum samningum og framtíðarsamningum er sá að með gerð framvirks samnings er undirliggjandi eign oftast afhent í lok samningstímans, en framtíðarsamningar eru oftast gerðir upp á samningstímanum og því kemur ekki til afhendingar.