ATTENTION: Your security is our aim. With or without hats, we try to make our readers feel welcome. From the mists of downtown Reykjavik we hype tunes that can make our society a safer place.

Monday, December 26, 2005

Hlutafjárútboð í Jólasveininum

Maðurinn með hvíta skeggið í rauða búningnum er enn á ný kominn í fréttirnar, nú vegna hlutafjáraukningar í verðmætasta vörumerki í heimi, Jólasveininum.
Vinir jólasveinanna segja að það sé ekki auðssöfnun sem hvetji þá áfram þrátt fyrir fyrirhugað hlutabréfaútboð í Jólaveininum heldur sé markmiðið að breikka hlutahafahópinn og auka tiltrúna á jólin. Góð samskipti við Grýlu, Leppalúða, álfa og tröll, bros barnanna og góð jólastemming er meira virði en peningar í huga þeirra. Jólasveinarnir hafa mikla tiltrú á hlutafjárútboðinu þrátt fyrir litlar efnislegar eignir, þar sem viðskiptavild sé eitt að töfraorðunum í dag.
Jólasveinarnir sáu tækifæri í jólunum á sínum tíma og þróuðu viðskiptahugmynd, með að útvíkka jólahátíðina og leggja áherslu á stemmingu og veisluhöld, á meðan aðrir töldu eina viðskiptatækifærið felast í sameiningu jólanna við gamlárskvöld. Þeir viðurkenna þó að þeir hafi ekki fundið upp jólin heldur eingöngu endurskipurlagt þau.
Sérstakur stjórnunarstíll jólasveina, sem samanstendur af góðri slettu af jólaöli og harðri stjórn á hreindýrunum, hefur vakið eftirtekt. Jólasveinunum hefur tekist að byggja upp viðskiptaveldi sem nær yfir stóran hluta jarðarinnar og veltir mörgum milljörðum króna. Til samanburðar voru jólin aðeins tveggja daga hátíð hér áður fyrr með lítilli markaðshlutdeild, aðallega haldin í kirkjum og á einkaheimilum. Í dag er næstum jafnmiklu fjármagni eytt í jólahátíðina og í heilbrigðis- og menntamál.
Formúlan á bak við velgengni jólanna er góð vörustjórnun, sem hefur hjálpað jólasveinunum að heimsækja þúsundir verslunarmiðstöðva á dag og fylla óteljandi skó á nóttunni.
Jólin líkt og aðrar atvinnugreinar hafa þurft að glíma við óvissu í sínum rekstri, s.s. heimsvæðingu, samkeppni, tækninýjungar og aukna netverslun. Í augnblikinu vinna þessir þættir með jólunum, en áhættuþættir eru nokkrir. Á meðal helstu áhættuþátta eru minnkandi tiltrú almennings á jólunum og slysahætta. Stóra spurningin er því: Hver getur tekið við af jólasveinunum ef eitthvað gerist og væru jólin söm án þeirra?

Annars langar mig að minna þig á Jan Mayen tónleikana á morgun, annan dag jóla, á Grand Rokk. Viltu ekki koma í heimsókn annað kvöld, gleðjast með okkur og halda svo á tónleika? Svo hittir þú okkur ekkert fyrr en 9.janúar þegar við komum heim frá Mexico.

Wednesday, December 21, 2005

Stóra spurningin er sú, ætti ég að fara á Blue Man group í Boston í næstu viku ???

Monday, December 19, 2005

Hún fór í klippingu í gær á Gel og núna er konan mín með styttra hár en ég. Ég mun finna lausn á því annað kvöld. Meira hef ekki að segja nema hvað að hárið á henni er fáranlega jive !

Sunday, December 18, 2005

Undirritaður rak upp stór augu þegar hann las opið bréf Sigríðar Mjallar Björnsdóttur til forseta Íslands og forsætisráðherra sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 18.desember. Sigríður gagnrýnir þar ákvarðanir forseta Íslands og forsættisráðherra að hafa óskað Unni Birnu Vilhjálmsdóttur til hamingju með sigurinn í keppninni ungfrú heimur. Samkvæmt Sigríði var sú ákvörðun hreint og beint dómgreindarleysi af hálfu forseta og forsætisráðherra vorrar þjóðar. Sigríður tekur fram að það hafi verið óviðeigandi af forseta Íslands, sem sameiningar tákns okkar, að taka afstöðu til máls sem þjóðin er ekki sammála um. Tel ég hinsvegar að meirihluti þjóðarinnar sé sammála afstöðu herra Ólafs Ragnars og frú Dorritar, annars er alltaf hægt að setja málið til þjóðaratkvæði til þess að útkljá þetta. Í þessu sambandi langar mig að koma að fyrirkomulagi keppninnar. Kosning fór fram á netinu um hvaða 6 stúlkur kæmust í lokahópinn. Almenningur gat kosið á netinu gegn vægu gjaldi um hvaða stúlku þeir vildu sjá í lokahópnum og tekið var mið af íbúafjölda þeirra landa sem í keppninni voru þegar atkvæði voru talin. Það þýðir að íslenska þjóðin var dugleg að styðja Unni Birnu með atkvæðum sínum, við erum jú heimsmeistarar þegar keppt er í einhverju þar sem tekið er mið af fólksfjölda. Unnur var svo valin úr þessum sex manna hóp til þess að taka að sér þau verkefni sem felast í hlutverki ungfrú heims. Þegar Sigríður líkir keppninni ungfrú heim við blautbola- og nektardanskeppnir þá var mér nóg boðið. Keppnin ungfrú heimur er allt annað. Þar er keppt um að verða sendiherra barnahjálpar og ferðast um heiminn og vekja athygli á málefnum bágstaddra barna. Dómnefn ber að velja unga konu sem er með báðar fætur á jörðinni og mun verða góður sendiherra barnahjálpar. Við ættum að vera stollt af vali dómnefndar og fagna því þegar íslenskur ríkisborgara tekur að sér jákvætt málefni á borð við þetta og á án efa eftir að verða landi og þjóð til sóma. Við verðum að gera okkur grein fyrir vali dómnefndar. Unnur var í íþróttalið Norður-Evrópu í íþróttakeppni keppninnar og lennti hún meðal annars í öðru sæti í langstökkskeppninni. Einnig tók hún þátt í hæfileikakeppninni og sýndi þar dansatriði enda kennir hún jassballet hér á landi. Svo stundar hún nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og starfar við löggæslu í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Ungfrú heimur þarf vissulega að vera geislandi persónu og vissum hæfileikum gædd til þess að geta vakið athygli á málefnum þeim sem hún mun starfa við næsta árið, því má líta á þessa keppni sem eitt stórt atvinnuviðtal og fékk Unnur Birna þessa eftirsóttu vinnu og því ber að fagna. Spurning hvort framlag hennar til góðgerðamála eigi eftir að skila meiru varðandi heimsfrið heldur en fyrirhuguð seta Íslendinga í öryggisráði sameinuðu þjóðanna.
Er þetta virkilega svo slæm fyrirmynd fyrir dætur okkar ?
Árlega veitir forseti Íslands verðlaunin íþróttamaður ársins og samþykkir þar af leiðandi þau gildi sem sá einstaklingur hefur tileinkað sér það árið á sviði íþróttanna. Eiður Smári Gudjohnsen hlaut þessi verðlaun í fyrra og er hann fyrirmynd flestra ungra drengja á Íslandi. Er hann eitthvað betri fyrirmynd en Unnur Birna ? Fullvaxinn karlmaður sem hefur það að atvinnu að stunda boltaleik ? Þrátt fyrir að vera mikill fótboltaáhugamaður þá vildi ég frekar að dóttir mín liti upp til Unnar í stað Eiðs Smára, þó einungis vegna þess að hún komst þangað sem hún er sökum heilbrigðis, námsárangurs og góðrar framkomu, en ekki einsvörðungu vegna íþróttahæfileika. Við íslendingar ættum að vera henni þakklátir árangurinn og styðja hana í stað þess að gagnrýna fegurðarsamkeppnir sem slíkar, en veitum því athygli að þær hafa breyst og eru farnar að taka meira mið af heilbrigði og lífsviðhorfum keppenda en þær gerðu áður.

Friday, December 16, 2005

Auðvitað eru brúður líka með mySpace síðu...

Greg.
Warren.
Blah.

Mæli með því að hafa hljóðið á.

Þetta kemst hættulega nálægt gamla góða Star Wars rappinu...

Árlega berst þónokkuð mikið magn jólakveðja á tölvuformi. Í morgun fékk ég fallega kveðju frá hóteli í Oia á Santorini, Grikklandi. Við höfum samt ekki gist á Olympic Villas, en að mig minnir þá var ég í einhverjum samskiptum við þá fyrir ferðina okkar til Santorini sumarið í fyrra.

Þetta er kveðjan frá þeim:



Það er eitthvað frekar óhugnarlegt við þessa snjókarla. Kannski það að ég hef ekki séð snjókarl síðan í þorskastríðinu eða þá að grísku snjókarlarnir séu eins og íslensku jólasveinarnir, ræningjar og ruplarar og með mikla svitalykt, búnir til úr menguðum snjó við landamæri Makedóníu. Svo eru þeir líka á spýtti að dansa við Tribulations með LCD Soundsystem sem er NB voðalega fínt lag.

Wednesday, December 14, 2005

"Úlfar said...
Sty, seldu öll verðbréf sem þú átt NÚNA, áður en það verður of seint. Án gríns."

1:52 AM 13.november 2005.

Eftir þessa tilvitnun Úlfars í athugunarkassa á blogghöfninni minni þá hefur hlutabréfasafn mitt vaxið um 7.8%, en það verður að teljast ágætis mánaðarávöxtun. Fyrir töluóþennkjandi aðila þá útfærist þessi aukning á eftirfarandi hátt: Ein milljón fyrir mánuði síðan er í dag orðin að einni milljón, sjötíu og átta þúsund íslenskar krónur. Ég ætla hinsvegar ekki að gefa upp minn raunverulega hagnað af hlutabréfasafninu mínu en fyrir leikmenn þá er hálfs árs ávöxtun þess 27.11%. Safnið mitt samanstendur af Landsbanka Íslands, KB Banka, Actavis, SÍF, Mosaic Fashions og Dell Computers, sem er eina fyrirtækið á öðrum markaði en þeim íslenska. Vægi bréfanna í safninu er að sjálfsögðu mismunandi, allt frá því að vera tæplega 37% niður í rúmlega 6%.

Góða nótt.

Tuesday, December 13, 2005

Hækkun stýrivaxta leiðir ekkert endilega til meiri sparnaðar á meðal neytenda, en hún dregur þó úr lántökum til einkaneyslu sem dregur úr verðbólgu sem er einmitt markmið Seðlabankans með gerðum sínum.


Ef þú værir að fá líf að láni, altso fæðast inní þennan heim, en vissir ekki hvar á jörðinni þú yrðir barnborin, þá reikna ég með því að þú vildir hafa sömu tækifæri og aðrir sem eru að fæðast. Gefðu þá til góðgerðamála um jólin og hættu að eyða þúsundum í jólagjafir ! Asni.

(Ferðalög eiga ekkert skylt með jólagjöfum og eru lífsnauðsynleg fyrir aukna alþjóðavæðingu sem leiðir til meiri réttlætis í heiminn og stuðlar að auknu jafnrétti kvenna).

Ert þú heimsforeldri ?!

Djöfull er Maps með Yeah Yeah Yeahs gott lag !

Sunday, December 11, 2005

Það er búið að kólna. Mér fannst nokkuð kalt áðan þegar ég fór fram úr. Ég ákvað að kinda. Það leiddi huga minn að íslenskum búfjárorðum sem notuð eru við hin ýmsu tilefni. Fé getur ýmist verið í formi gjaldmiðils nú eða dýra. Einnig er ég að kinda húsið mitt. Vatnið mitt sauð í gær, en það er komið af því að sjóða og alls ekki skylt Sauðfjárrækt, þó sama stafabygging. Þetta sýnir hversu rækilega lömbin okkar eru búin að koma sér fyrir í þjóðfélaginu okkar. Í gegnum tíðina hafa íslendingar verið duglegir við að skýra börnin sín eftir dýrum, þá aðallega tignarlegum fuglum líkt og Örn og Haukur, sumir ganga jafnvel svo langt að skýra börnin sín (þá aðallega stráka) eingöngu eftir fuglum eða dýrum. Hjörtur er annað form af skepnu og Björn eitt í viðbót. Svanurinn er öllu kvennlegri og væri þá sniðugt að setja jafnvel sterkt millinafn með líkt og Krummi svo sonurinn verði ekki fagot, en ég hef samt ekkert á móti fagottum. Nú spyr ég, er ekki kominn tími til að Íslendingar, þessi mikla sjávarútvegsþjóð, fari að skýra erfingja sína eftir dýrum í sjónum? Eina sem ég man eftir í fljótu bragði er Hrefna. Hér eru hugmyndir að skemmtilegum nöfnum: T.d. Kind Björnsdóttir, Hrútur Hjartarson, Rauðspretta Koladóttir og Hvalur Jónsson. Það gerist ekki öllu íslenskara en kindin okkar og fiskurinn.

Með breyttum tímum, breytast atvinnuhættir og samfélög og hver veit nema eftir nokkra tugi ára verðum við farin að skýra börnin okkar eftir hugtökum úr fjármálalífinu, altso Gengi Sigurðsson, Vöxtur Hauksson, Eftirspurn Sveinsdóttir og Vísitala Nökkvadóttir.

í framhaldinu er þetta skemmtileg viðbót.

Saturday, December 10, 2005

Athyglisvert að skv. meðalframfærslukostnaðarútreikningum Hagstofunnar eyða hjón með eitt barn 30% meira á mánuði í áfengi og tóbak en barnlaus hjón (7.477 kr. á móti 5.718 kr.). Þetta eru frekar fyndnar niðurstöður. Með öðru barninu minnkar neyslan en með því þriðja kemst hún í svipað horf og með eitt barn á heimili. Fjórða afkvæmið dregur úr þessari átvr-neyslu.
Heilbrigða skýring á þessu er að sjálfsögðu sú að "hjón" eru yfirleitt komin af léttasta skeiðinu, börnin eru sumsé flutt að heiman. Hjón með eitt barn eru yfirleitt yngri en hjón með tvö.

Thursday, December 08, 2005

Nú eru 19 dagar þar til að við leggjum af stað til Boston og svo áfram til Mexico. Hinsvegar eru blikur á lofti þar sem ég hef verið að skoða gagnrýni á hótelið eftir að ungfrú Wilma fór þar yfir í lok Nóvember, allt er ekki með feldu. Feldurinn er ekki af sama sauðalæknum áður en Wilma mætti á svæðið. Nú vantar nokkurt magn af pálmatrjám og hengirúmum. Ströndin er mest megnis í glerbrotum, en hefur þó stækkað sökum mikils sands sem kom með fellibylnum. Ekki er búið að opna alla sjö sér-veitingastaðina og hlaðborðið (morgun og hádegis) er ekki eins og var áður. Skordýrum hefur einnig fjölgað og sækja þau mikið að hlaðborðinu og sykruðum hanastélsbörum. Nú er spurning hvort þetta verði komið í samt lag um áramótin. Nú bíð ég fram yfir helgi eftir góðum dóm varðandi svæðið og ef hann verður ekki að veruleika þá mun og hringja á ferðaskrifstofuna sem við erum að versla við og óska eftir því að flytja okkur yfir á annað hótel sem varð ekki fyrir eins miklu tjóni, en það var einmitt valkostur númer 2 hjá okkur.

Kisa. Hún er án efa það skemmtilegasta sem hefur orðið á lífsvegi mínum. Ónefndum aðila gleymdist að gefa Kisu mat áður en farið var í stuttan verslunarleiðangur. Tveim klukkustundum síðar þegar skötuhjúinn komu aftur í íbúðina sína þá var litla stúlkan búin að redda sér. Hún dró nefnilega brauðpoka ofan af eldhúsborði og alla leið inní svefnherbergið. Þar lág hún södd og sæl, búin að rífa upp pokann og dreifa brauðmylsnum um allt lakið. Sjá mynd.

Friday, December 02, 2005

Hinn hái kostnaður af lágum verðum Wal-Mart, bandaríska smásölurisans.

Wal-Mart, stærsta smásölukeðja heims, tilkynnti um 9 mánaða afkomu sína fyrir yfirstandandi ár á dögunum. Þessi risavaxna verslunarkeðja er um margt áhugaverð og er í senn elskuð og hötuð af bandarískum neytendum. Í Wal-Mart er hægt að kaupa nánast allt sem hugurinn girnist og erfitt er að finna þá neytendavöru sem ekki er hægt að kaupa í Wal-Mart.



Áhugaverðar stærðir um Wal-Mart.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að Wal-Mart er með fleiri starfsmenn en ameríski herinn, eða alls um 1,6 milljónir starfsmanna. Þessir starfsmenn vinna í 3.600 verslunum í Bandaríkjunum og 2.300 verslunum utan Bandaríkjanna.

Það koma fleiri en 100 milljónir manna vikulega í verslanir Wal-Mart þar sem að meðaltali 228 viðskiptavinir eru afgreiddir á hverri sekúndu. Þá er talið að Wal-Mart beri eitt og sér ábyrgð á 1/10 af viðskiptahalla Bandaríkjanna við Kína.

Hagfræðingar hafa misjafnar skoðanir á Wal-Mart en eitt er þó sameiginlegt með þeim að allir telja Wal-Mart það stórt í dag að ákvarðanir þess hafi áhrif á ameríska hagkerfið. Á síðasta ári jók Wal-Mart framleiðni ameríkumarkaðarins um 0,75% með hagstæðari samningum við birgja sína. Kaupmáttur bandarískra neytanda jókst um 118 billjónir dollara (7.400 billjónir kr.) eða um 410 dollara (26.000 kr.) á mann og innan Wal-Mart sköpuðust 210 þúsund ný störf.


Hin hliðin á teningnum.

En ekki eru allir ánægðir með Wal-Mart. Verkalýðsfélög segja að opnun Wal-Mart verslana hafi töluverð áhrif á næsta umhverfi. Þeir benda meðal annars á, máli sínu til stuðnings, að 8 árum eftir komu Wal-Mart til Californiu hafi meðallaun starfsfólks í smásölu lækkað um 3,5% og að meðallaun á svæðinu, þegar litið er á allann vinnumarkaðinn, hafi lækkað um 4,8%.

Árið 2003 voru gerðar húsrannsóknir í 60 verslunum Wal-Mart í 21 ríki Bandaríkjanna. Þær húsrannsóknir leiddu til handtöku 245 ólöglegra innflytjenda sem fengu, eins og einn framkvæmdastjóri Wal-Mart orðaði það, líklega 1 dollara (63 kr.) á tímann. Aldrei kom til dómtöku í þessu máli þar sem að Wal-Mart gerði sátt umað greiða 11 milljónir dollara (575 milljónir kr.) til þess að fallið yrði frá málssókn.

Nýlega hvatti forstjóri Wal-Mart, H.Lee Scott, Jr., bandaríska þingið til að hækka lágmarkslaun starfsfólks í smásölugeiranum en sömu lágmarkslaun fyrir þennan hóp hafa verið í gildi frá árinu 1977 sem eru 5,15 dollarar (320 krónur) á klukkustund. Þetta fannst forsvarsmönnum verkalýðsfélaganna meira leikur en alvara þar sem öllum var ljóst að Bandaríkjaþing myndi aldrei verða við beiðni Scott. Til að bæta gráu ofan á svart neitaði Scott sjálfur á sama tíma að hækka lágmarkslaun starfsmanna Wal-Mart en í dag eru þau 9,68 dollarar (610 krónur) á klukkustund fyrir fólk í 100% starfi.

Í síðustu viku var útlendingaeftirlitið í Bandaríkjunum enn á ferð og hefur nú 120 ólöglega innflytjendur í haldi eftir að þeir voru teknir fastir þar sem þeir störfuðu við byggingu á nýrri dreifingarmiðstöð Wal-Mart í Philadelphia.
Verkamennirnir, sem forsvarsmenn Wal-Mart segja að hafi unnið fyrir undirverktaka, fengu 8 dali (505 krónur) á tímann, sem er langt undir kauptöxtum.


Andófsmyndbönd.

Það þarf því ekki að koma á óvart að það eru margir aðilar sem gera allt sitt til að berjast gegn yfirráðum Wal-Mart á smásölumarkaðinum. Endalausar ákærur og herferðir eru gegn félaginu sem hefur her manna í almannatengsladeild sinni en meginmarkmið deildarinnar er að draga úr áhrifum neikvæðra frétta um Wal-Mart.

Ýmsar leiðir eru farnar í þessum efnum og fyrir stuttu kom út heimildamynd sem nefnist "The High Cost of Low Price" eftir Robert Greenwald. Henni er ætlað að hafa samskonar áhrif á Wal-Mart og mynd Michael Moore "Fahrenheit 9/11" hafði á George W. Bush. Almannatengslalið Wal-Mart vinnur nú dag og nótt til að draga úr áhrifum heimildamyndar Greenwald sem er síður en svo hlutlaus. Með mynd sinni vonast Greenwald til að amerískir neytendur taki undir skoðanir sínar og að jólaverslunin í ár verði annars staðar en í Wal-Mart.


Getur Davíð fellt Golíat?

Greiningaraðilar á fjármálamarkaði fylgjast vel með fyrirtækinu og verð á hlut í Wal-Mart er í dag um 16% lægra heldur en í upphafi árs 2002 þegar gengi Wal Mart var yfir 60 dollara á hlut. Í tilkynningum frá Wal-Mart er gert ráð fyrir að
jólavertíðin í ár verði mun betri en í fyrra. Gengi Wal-Mart hefur verið stígandi upp á við frá því í september en það stendur nú í rúmum 50 dollurum á hlut.

Spurningin er hvort að Davíð felli Golíat eða hvort að heimildamynd Robert Greenwald hafi öfug áhrif líkt og gerðist um síðustu hrekkjavökuhátíð Bandaríkjamanna. Þá hvöttu ýmsir þrýstihópar í Bandaríkjunum neytendur til að versla annars staðar en í Wal-Mart. Þær aðgerðir báru ekki tilætlaðan árangur þar sem að Wal-Mart fagnaði sinni bestu hrekkjavökuhátíð frá upphafi.


Það er því ómögulegt að segja til um hvað gerist en áhugavert verður að fylgjast með jólasölu Wal-Mart um þessi jól.