Hinn hái kostnaður af lágum verðum Wal-Mart, bandaríska smásölurisans.Wal-Mart, stærsta smásölukeðja heims, tilkynnti um 9 mánaða afkomu sína fyrir yfirstandandi ár á dögunum. Þessi risavaxna verslunarkeðja er um margt áhugaverð og er í senn elskuð og hötuð af bandarískum neytendum. Í Wal-Mart er hægt að kaupa nánast allt sem hugurinn girnist og erfitt er að finna þá neytendavöru sem ekki er hægt að kaupa í
Wal-Mart.
Áhugaverðar stærðir um Wal-Mart.Það er ótrúlegt til þess að hugsa að Wal-Mart er með fleiri starfsmenn en ameríski herinn, eða alls um 1,6 milljónir starfsmanna. Þessir starfsmenn vinna í 3.600 verslunum í Bandaríkjunum og 2.300 verslunum utan Bandaríkjanna.
Það koma fleiri en 100 milljónir manna vikulega í verslanir Wal-Mart þar sem að meðaltali 228 viðskiptavinir eru afgreiddir á hverri sekúndu. Þá er talið að Wal-Mart beri eitt og sér ábyrgð á 1/10 af viðskiptahalla Bandaríkjanna við Kína.
Hagfræðingar hafa misjafnar skoðanir á Wal-Mart en eitt er þó sameiginlegt með þeim að allir telja Wal-Mart það stórt í dag að ákvarðanir þess hafi áhrif á ameríska hagkerfið. Á síðasta ári jók Wal-Mart framleiðni ameríkumarkaðarins um 0,75% með hagstæðari samningum við birgja sína. Kaupmáttur bandarískra neytanda jókst um 118 billjónir dollara (7.400 billjónir kr.) eða um 410 dollara (26.000 kr.) á mann og innan Wal-Mart sköpuðust 210 þúsund ný störf.
Hin hliðin á teningnum.En ekki eru allir ánægðir með Wal-Mart. Verkalýðsfélög segja að opnun Wal-Mart verslana hafi töluverð áhrif á næsta umhverfi. Þeir benda meðal annars á, máli sínu til stuðnings, að 8 árum eftir komu Wal-Mart til Californiu hafi meðallaun starfsfólks í smásölu lækkað um 3,5% og að meðallaun á svæðinu, þegar litið er á allann vinnumarkaðinn, hafi lækkað um 4,8%.
Árið 2003 voru gerðar húsrannsóknir í 60 verslunum Wal-Mart í 21 ríki Bandaríkjanna. Þær húsrannsóknir leiddu til handtöku 245 ólöglegra innflytjenda sem fengu, eins og einn framkvæmdastjóri Wal-Mart orðaði það, líklega 1 dollara (63 kr.) á tímann. Aldrei kom til dómtöku í þessu máli þar sem að Wal-Mart gerði sátt umað greiða 11 milljónir dollara (575 milljónir kr.) til þess að fallið yrði frá málssókn.
Nýlega hvatti forstjóri Wal-Mart, H.Lee Scott, Jr., bandaríska þingið til að hækka lágmarkslaun starfsfólks í smásölugeiranum en sömu lágmarkslaun fyrir þennan hóp hafa verið í gildi frá árinu 1977 sem eru 5,15 dollarar (320 krónur) á klukkustund. Þetta fannst forsvarsmönnum verkalýðsfélaganna meira leikur en alvara þar sem öllum var ljóst að Bandaríkjaþing myndi aldrei verða við beiðni Scott. Til að bæta gráu ofan á svart neitaði Scott sjálfur á sama tíma að hækka lágmarkslaun starfsmanna Wal-Mart en í dag eru þau 9,68 dollarar (610 krónur) á klukkustund fyrir fólk í 100% starfi.
Í síðustu viku var útlendingaeftirlitið í Bandaríkjunum enn á ferð og hefur nú 120 ólöglega innflytjendur í haldi eftir að þeir voru teknir fastir þar sem þeir störfuðu við byggingu á nýrri dreifingarmiðstöð Wal-Mart í Philadelphia.
Verkamennirnir, sem forsvarsmenn Wal-Mart segja að hafi unnið fyrir undirverktaka, fengu 8 dali (505 krónur) á tímann, sem er langt undir kauptöxtum.
Andófsmyndbönd.Það þarf því ekki að koma á óvart að það eru margir aðilar sem gera allt sitt til að berjast gegn yfirráðum Wal-Mart á smásölumarkaðinum. Endalausar ákærur og herferðir eru gegn félaginu sem hefur her manna í almannatengsladeild sinni en meginmarkmið deildarinnar er að draga úr áhrifum neikvæðra frétta um Wal-Mart.
Ýmsar leiðir eru farnar í þessum efnum og fyrir stuttu kom út heimildamynd sem nefnist "The High Cost of Low Price" eftir Robert Greenwald. Henni er ætlað að hafa samskonar áhrif á Wal-Mart og mynd Michael Moore "Fahrenheit 9/11" hafði á George W. Bush. Almannatengslalið Wal-Mart vinnur nú dag og nótt til að draga úr áhrifum heimildamyndar Greenwald sem er síður en svo hlutlaus. Með mynd sinni vonast Greenwald til að amerískir neytendur taki undir skoðanir sínar og að jólaverslunin í ár verði annars staðar en í Wal-Mart.
Getur Davíð fellt Golíat?Greiningaraðilar á fjármálamarkaði fylgjast vel með fyrirtækinu og verð á hlut í Wal-Mart er í dag um 16% lægra heldur en í upphafi árs 2002 þegar gengi Wal Mart var yfir 60 dollara á hlut. Í tilkynningum frá Wal-Mart er gert ráð fyrir að
jólavertíðin í ár verði mun betri en í fyrra. Gengi Wal-Mart hefur verið stígandi upp á við frá því í september en það stendur nú í rúmum 50 dollurum á hlut.
Spurningin er hvort að Davíð felli Golíat eða hvort að heimildamynd Robert Greenwald hafi öfug áhrif líkt og gerðist um síðustu hrekkjavökuhátíð Bandaríkjamanna. Þá hvöttu ýmsir þrýstihópar í Bandaríkjunum neytendur til að versla annars staðar en í Wal-Mart. Þær aðgerðir báru ekki tilætlaðan árangur þar sem að Wal-Mart fagnaði sinni bestu hrekkjavökuhátíð frá upphafi.
Það er því ómögulegt að segja til um hvað gerist en áhugavert verður að fylgjast með jólasölu Wal-Mart um þessi jól.